Góðar fréttir

17. desember 2019

Sigrar ársins 2019

Árangur af starfi Amnesty Internati­onal og mann­rétt­inda­bar­átt­unnar er margs konar. Lög eru sett til verndar mann­rétt­indum, komið er í veg fyrir laga­breyt­ingar sem ógna mann­rétt­indum, rétt­læti næst, aftökur eru stöðv­aðar, fólk er leyst úr haldi og fyrir­tækjum gert að virða mann­rétt­indi. Þátt­taka þín í mann­rétt­inda­bar­átt­unni skiptir máli.

Í lok ársins er ekki úr vegi að skoða þær góðu fréttir sem hafa komið árið 2019 en þær sýna hvernig samtaka­mátt­urinn getur haft áhrif til hins betra. Í hverjum mánuði á árinu urðu jákvæðar breyt­ingar víðs vegar um heiminn. Svona hafði þrýst­ingur áhrif á mann­rétt­indi í heim­inum árið 2019.

Janúar

RÉTT­LÆTI Í MEXÍKÓ Í KJÖLFAR SAMAN­TEKTAR AMNESTY

Til minn­ingar um Julián Carillo, umhverf­is­vernd­arsinna sem var myrtur í október 2018, birti Amnesty Internati­onal saman­tekt: Caught between bullets and neglect, um hvernig stjórn­völd í Mexíkó höfðu brugðist skyldu sinni að vernda baráttu­fólk í umhverf­is­málum. Nokkrum klukku­stundum eftir birt­inguna voru tveir grun­aðir hand­teknir fyrir morðið á Julián. Það sýndi þau fljót­virku áhrif sem Amnesty Internati­onal getur haft á rétt­læti.

SAMKYN­HNEIGÐ EKKI LENGUR REFSI­VERÐ Í ANGÓLA

Þingið í Angóla samþykkti endur­skoðun á refsi­lög­gjöf. Tekið var út ákvæði er var iðulega túlkað á þann hátt að samkyn­hneigð sambönd væru refsi­verð. Þar var þó ekki látið við sitja því öll mismunun gegn fólk vegna kynhneigðar var gerð refsiverð. Angóla var fyrsta landið árið 2019 til að gera það!

Febrúar

MIKILVÆG LÖGGJÖF FYRIR FLÓTTA­FÓLK SAMÞYKKT Í ÁSTR­ALÍU

Samþykkt var mikilvæg löggjöf í Ástr­alíu sem auðveldar flótta­fólki í haldi á Manus-eyjum og Nárú að sækja lífs­nauð­syn­lega lækn­is­með­ferð í Ástr­alíu. Þetta mikil­væga skref náðist með samstarfi Amnesty Internati­onal við fjölda einstak­linga og samtaka en ekki síst starfi flótta­fólksins sjálfs og hugrekki þess.

FRAMÚRSK­AR­ANDI Í MANN­RÉTT­INDA­BAR­ÁTT­UNNI FYRIR FLÓTTA­FÓLK

Abdul Aziz Muhamat, súdanskur flótta­maður og aðgerðasinni sem var í haldi á Manus-eyjum frá árinu 2013, hlaut Martin Ennals verð­launin. Verð­launin eru veitt þeim sem hafa verið framúrsk­ar­andi í mann­rétt­inda­bar­átt­unni. Barátta hans náði alþjóð­legri athygli eftir að Amnesty Internati­onal vakti athygli á henni. Fyrr á þessu ári fékk Abdul loks stöðu  flótta­manns í Sviss og varan­legt land­vist­ar­leyfi.

LJÓЭSKÁLD OG BLAÐA­MAÐUR FRÁ JÓRDANÍU LEYSTUR ÚR HALDI Í ABU DABI

Tayseer Salman al-Najjar, blaða­maður og ljóð­skáld frá Jórdaníu, var leystur úr haldi í Abu Dabi í Sameinuðu arab­ísku fursta­dæmunum. Hann var hand­tekinn árið 2015 eftir að hafa sett athuga­semd á Face­book þar sem hann gagn­rýndi Sameinuðu arab­ísku fursta­dæmin og lofaði mótstöðu­afli á Gaza. Eigin­kona Tayseer sagði  Amnesty Internati­onal: „Þið hafið verið eins og fjöl­skylda okkar Tayseer. Takk fyrir stöð­ugan stuðning ykkar.“

UNG KONA FRÁ SÁDI-ARABÍU FÆR VERND Í KANADA

Rahaf Mohammed al-Qunun, 18 ára kona frá Sádi-Arabíu, fékk vernd og aðgang að Flótta­manna­stofnun í Taílandi eftir að hafa flúið ofbeldi, misbeit­ingu og dauða­hót­anir frá fjöl­skyldu sinni í Sádi-Arabíu. Áfram­hald­andi barátta Amnesty Internati­onal átti þátt í þeim ánægju­legu mála­lokum að henni var veitt alþjóðleg vernd í Kanada þar sem hún er nú örugg.

FÓTBOLTA­MAÐUR SNÝR HEIM TIL ÁSTR­ALÍU EFTIR VARЭHALD Í TAÍLANDI

Hakeem al-Araib, fótbolta­maður og flótta­maður, fékk loks að snúa aftur til síns heima í Melbourne eftir 76 daga í haldi í Taílandi. Hann var fæddur í Barein og hand­tekinn við komu sína til Bangkok þann 27. nóvember 2018 þar sem hann hafði, fyrir mistök, verið skráður á lista hjá Interpol. Hakeem hafði opin­ber­lega gagn­rýnt yfir­völd í Barein. Herferð Amnesty Internati­onal fyrir frelsi hans ásamt fleirum varð að hreyf­ingu á samfé­lags­miðlum í þremur heims­álfum undir myllu­merkinu #SaveHakeem. Fótbolta­menn, Ólymp­íu­þátt­tak­endur og frægt fólk sýndu stuðning með þátt­töku sinni ásamt 165.000 einstak­lingum.

HÆTT VIÐ AFTÖKU Á BARÁTTU­KONU Í SÁDI-ARABÍU

Eftir alþjóð­lega athygli og herferð Amnesty Internati­onal var hætt við aftöku á Israa al-Ghom­gham, baráttu­konu, fyrir frið­sam­lega þátt­töku í mótmælum. Hún er enn í fang­elsi og Amnesty Internati­onal heldur áfram að kalla eftir því að hún verði leyst úr haldi án tafar.

Mars

HÓPUR FÓLKS LEYST ÚR HALDI EFTIR ÁKALL AMNESTY INTERNATI­ONAL

Amnesty Internati­onal kallaði eftir því að sjálf­stjórn­ar­svæði Kúrda í Írak myndi falla frá ákærum gegn fjöl­miðla­fólki og aðgerða­sinnum sem voru hand­tekin að geðþótta í kjölfar mótmæla. Í sömu viku var allt fólkið leyst úr haldi og sjálf­stjórn Kúrda sendi frá sér yfir­lýs­ingu um að það hefði verið gert vegna ákalls Amnesty Internati­onal.

GÖGN BIRT Í KJÖLFAR SKÝRSLU AMNESTY INTERNATI­ONAL

AFRICOM viður­kenndi í fyrsta sinn að óbreyttir borg­arar í Sómalíu hefðu fallið eða særst í loft­árásum þeirra eftir að Amnesty Internati­onal birti rann­sókn sína: The Hidden US War in Somalia, Civilian Casualties from Air Strikes in Lower Shabelle. Skýrslan leiddi til þess að rann­sókn hófst á loft­árás­unum og endaði með því að birt voru gögn frá banda­ríska hernum sem stað­festu að þeir vissu um frekara mann­fall óbreyttra borgara í fjöl­mörgum loft­árásum í Sómalíu.

FRÉTTA­LJÓS­MYNDARI LEYSTUR ÚR HALDI Í EGYPTALANDI

Árið 2013 var frétta­ljós­mynd­arinn Shawkan fang­els­aður fyrir að taka myndir af lögregl­unni beita ofbeldi á mótmælum í Kaíró. Hann stóð frammi fyrir dauðarefs­ingu fyrir að vinna vinnuna sína. Eftir fimm ára þrýsting á egypsk stjórn­völd var Shawkan  loks leystur úr haldi.

ÞRJÁR BARÁTTU­KONUR LEYSTAR ÚR HALDI í SÁDI-ARABÍU

Þrjár baráttu­konur fyrir mann­rétt­indum voru leystar úr haldi í Sádi-Arabíu. Þær leiddu baráttu fyrir rétt­indum kvenna til að keyra og binda enda á mismunun gegn konum. Íslands­deild Amnesty Internati­onal tók mál þeirra fyrir í SMS-aðgerðanetinu þar sem 820 einstak­lingar svöruðu ákallinu um að stöðva herferð stjórn­valda gegn mann­rétt­inda­sinnum, þar á meðal þessum baráttu­konum. Ungl­iða­hreyf­ingin safnaði einnig 326 undir­skriftum í tveimur aðgerðum sumarið 2018.

AÐGERÐASINNI LEYSTUR ÚR HALDI Í MYANMAR

Tin Maung Kyi, aðgerðasinni, var leystur úr haldi eftir sex mánuði í fang­elsi. Hann hafði verið hand­tekinn fyrir mótmæli þar sem hann kallaði eftir því að alþjóða­sam­fé­lagið myndi hand­taka hátt­setta aðila í her Myanmar.

KOMIÐ Í VEG FYRIR SKERЭINGU Á TJÁN­ING­AR­FRELSI Í ÍRAK

Nokkrum dögum eftir að Amnesty Internati­onal og önnur samtök bentu á að drög að lögum gegn tölvuglæpum í Írak myndu grafa alvar­lega undan tján­ing­ar­frelsinu ákvað íraska þingið að draga frum­varpið til baka og stað­festi að áhyggjur samtak­anna hefðu komist til skila.

TÍMA­MÓTA­ÁLYKTUN MANN­RÉTT­INDA­RÁÐS SAMEINUÐU ÞJÓЭANNA

Mann­rétt­indaráð Sameinuðu þjóð­anna samþykkti tíma­móta­ályktun til viður­kenn­ingar á mikil­vægi umhverf­is­vernd­arsinna. Að auki var kallað eftir því að ríki veittu ungu fólki öruggt umhverfi fyrir framtak þess í málum eins og  í þágu lofts­lags­mála.

FRAM­FARIR Í RANN­SÓKN Á MORÐI Á BARÁTTU­KONU í BRAS­ILÍU

Rétt um ár var liðið frá morði Marielle Franco, þekktri baráttu­konu fyrir mann­rétt­indum í Bras­ilíu, þegar lögreglan handtók tvo einstak­linga í tengslum við morðið. Þetta voru fyrstu fram­far­irnar í málinu en Amnesty Internati­onal hafði kallað eftir frekari aðgerðum í árlegri herferð samtak­anna, Þitt nafn bjargar lífi (áður Bréf til bjargar lífi), frá því árið 2018.

LÖGREGLAN VERNDAR FJÖLDA­FUND KVENNA Í ÚKRAÍNU

Vitalina Koval, ein af baráttu­konum fyrir mann­rétt­indum í herferð okkar Þitt nafn til bjargar lífi 2018 (áður Bréf til bjargar lífi), skipu­lagði fjölda­fund kvenna í Uzhg­orod í vest­ur­hluta Úkraínu sem haldinn var án vand­kvæða þann 8. mars síðast­liðinn á alþjóða­degi kvenna. Lögreglan veitti vernd á fund­inum sem var mikil­vægt því árið 2017 og 2018 var Vitalina skot­mark hóps hægri-öfga­sinna á sams­konar fjölda­fundi án verndar lögreglu. Þökk sé víðtækum þrýst­ingi innan­lands sem og utan, þar á meðal herferð Amnesty Internati­onal, var gripið til viðeig­andi aðgerða til að tryggja öryggi á fund­inum í ár.

RÉTT­LÆTI FYRIR MORÐ Á AÐGERÐA­SINNA Í MEXÍKÓ

Saksóknari í Morelos í Mexíkó hefur hafið rann­sókn á morði Samir Flores Soberanes sem var skotinn á heimili sínu í Mexíkó í febrúar. Hann hafði verið opin­skár í andstöðu sinni gegn verk­efni í orku­málum vegna umhverf­is­sjón­ar­miða. Að auki hafa nokkrir aðilar í sömu hreyf­ingu og Samir tilheyrði fengið vernd í Mexíkó.

 

Apríl

ÁFANGA­SIGUR GEGN STÓR­FYR­IR­TÆKINU SHELL

Fyrir tveimur árum dró Esther Kiobel ásamt þremur konum Shell, stærsta olíu­fyr­ir­tæki í heimi, fyrir dómstóla eina ferðina enn í baráttu sem hefur staðið í tuttugu ár. Hún telur að Shell hafi átt þátt í því að eigin­maður hennar hafi verið tekinn af lífi án dóms og laga í Nígeríu. Amnesty Internati­onal færði Esther yfir 30 þúsund stuðn­ingskveðjur vegna barátt­unnar. Í apríl kvað dómstóll í Hag í Hollandi upp bráða­birgða­úrskurð konunum í hag. Samkvæmt úrskurð­inum hefur dómstóllinn lögsögu yfir málinu og málið er ekki fyrnt.

„Við fögnum áfanga­sigri Esther Kiobel, Victoria Bera, Blesseing Eawo og Charity Levula. Hugrekki þeirra og þraut­seigja var ástæðan fyrir því að við náðum þetta langt,“ segir Mark Dummet, rann­sak­andi á sviði viðskipta og mann­rétt­inda.

BLAÐA­MAÐUR LEYSTUR ÚR HALDI Í MÓSAMBÍK

Mósam­b­ískur blaða­maður, Amade Abubaca, var hand­tekinn að geðþótta í janúar og haldið í einangrun í 90 daga. Hann var leystur úr haldi til reynslu eftir herferð Amnesty Internati­onal honum til stuðn­ings. Amade á enn yfir höfði sér fang­els­isdóm.

ÁFORM UM AÐ AFNEMA DAUÐAREFS­INGUNA Í MIÐBAUGS-GÍNEU

Í kjölfar útgáfu á árlegri skýrslu Amnesty Internati­onal um dauðarefs­ingar tilkynnti forseti Miðbaugs-Gíneu að stjórn­völd þar í landi ætli sér að leggja fram frum­varp um afnám dauðarefs­ing­ar­innar. Síðasta aftakan í Miðbaugs-Gíneu fór fram í janúar 2014 en nokkrum dögum síðar voru aftökur stöðv­aðar tíma­bundið í landinu.

TÍMA­MÓTA­ÚRSKURÐUR UM ÞUNG­UN­ARROF Í SUÐUR-KÓREU

Stjórn­ar­skrár­dóm­stóll Suður-Kóreu kvað upp tíma­móta­úrskurð þar sem stjórn­völdum var fyrir­skipað að afglæpa­væða og gera umbætur á ströngum lögum um þung­un­arrof. Það þarf að vera búið að endur­skoða lögin fyrir lok ársins 2020. Þetta er mikill sigur fyrir jafn­rétti, rétt­indi kvenna og sjálfs­ákvörð­un­ar­rétt á eigin líkama.

Maí

TVEIR BLAÐA­MENN NÁÐAÐIR Í MYANMAR 

Tveir blaða­menn Reuters í Myanmar, Wa Lone og Kyaw Soe Oo, voru leystir úr haldi án skil­yrða í maí eftir náðun forseta landsins. Þeir höfðu þá afplánað rúmlega 500 daga af sjö ára dómi. Blaða­menn­irnir voru að rann­saka fjölda­morð á tíu Róhingjum af hálfu örygg­is­sveita Myanmar þegar þeir voru hand­teknir í desember 2017.

Ég vil þakka öllum þeim sem hjálpuðu okkur í fang­elsinu og þeim sem kölluðu eftir lausn okkar víðs­vegar að úr heim­inum. Ég get ekki beðið eftir því að fara aftur á frétta­stofuna.“ Wa Lone, annar blaða­mann­anna, fyrir utan fang­elsið við frétta­fólk þegar hann var leystur úr haldi.

SMS-félagar Amnesty Internati­onal kölluðu eftir lausn Wa Lone og Kyaw Soe Oo sumarið 2018.

ALÞJÓÐAKNATT­SPYRNU­SAM­BANDIÐ BREGST VIÐ ÞRÝST­INGI VEGNA HM Í KATAR 2022

Þrýst­ingur um mann­rétt­indi átti þátt í að Alþjóðaknatt­spyrnu­sam­bandið (FIFA) ákvað að hætta við áform um fjölgun liða í 48 á heims­meist­ara­mótinu í Katar árið 2022. Amnesty Internati­onal í samvinnu við önnur félaga­samtök, verka­lýðs­félög, aðdá­endur og leik­manna­hópa vakti athygli á því að þessi fjölgun gæti þýtt að enn frekar yrði brotið á mann­rétt­indum farand­verka­fólks til að byggja ný mann­virki. Þessi árangur sýnir hverju samvinna getur áorkað og hvernig við getum beitt þrýst­ingi á áhrifa­mikil samtök til að virða mann­rétt­indi.

MILDUN DAUÐA­DÓMA 22 FANGA Í GAMBÍU

Forseti Gambíu, Adama Barrow, mildaði dauðarefs­ingu 22 fanga og var henni breytt í lífs­tíð­ar­fang­elsi. Þetta kom í kjölfar þess að sendisveit Amnesty Internati­onal fór til Gambíu til að afhenda stjórn­völdum ráð um tíu leiðir til að vernda mann­rétt­indi. Meðal þeirra var afnám dauðarefs­ing­ar­innar og að milda alla dauða­dóma í lífs­tíð­ar­fang­elsi.

TRANS EKKI GEÐSJÚK­DÓMUR HJÁ ALÞJÓÐA­HEIL­BRIGЭIS­STOFN­UN­INNI

Alþjóða­heil­brigð­is­stofn­unin hætti að flokka trans sem geðsjúkdóm og hegð­un­ar­truflun. Það þýðir að trans fólk er ekki lengur talið vera með geðsjúkdóm. Amnesty Internati­onal hefur frá árinu 2014 kallað eftir því að trans fólk sé ekki álitið vera með geðsjúkdóm og fái viður­kenn­ingu á að vera það sjálft.

LÖGLEIÐING HJÓNA­BANDA SAMKYN­HNEIGÐRA Í TAÍVAN

Taívan var fyrst til að lögleiða hjóna­band samkyn­hneigðra í Asíu eftir að söguleg lög voru samþykkt þann 17. maí. Viku síðar fór fram fyrsta hjóna­vígsla einstak­linga af sama kyni í landinu. Í samvinnu við hinsegin samtök í Taívan hefur Amnesty Internati­onal barist fyrir þessari útkomu í mörg ár. Að auki var ættleiðing samkyn­hneigðra para lögleidd, þó með ákveðnum skil­yrðum. Þetta eru gífur­lega mikilvæg skref fyrir rétt­indi hinsegin fólks í Asíu og fagn­að­ar­efni fyrir Amnesty Internati­onal og stuðn­ings­fólk þessa baráttu­máls.

Júní

LÖNGU TÍMABÆR LÖG UM KYNRÆNT SJÁLFRÆÐI SAMÞYKKT Á ÍSLANDI

Lög um kynrænt sjálfræði voru samþykkt á Íslandi en þannig tók Ísland mikil­vægt skref í áttina að  stöðu í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks. Lögin afnema úreltar kröfur um laga­lega kynskrán­ingu og tryggja kynrænt sjálfræði fyrir trans fólk þar sem horfið hefur verið frá því að krefjast geðgrein­ingar á svoköll­uðum „kynátt­un­ar­vanda“ til að fá laga­lega viður­kenn­ingu á kyni. Intersex einstak­lingar sem hafa náð sextán ára aldri fengu einnig vernd en vöntun er enn á vernd fyrir intersex börn. Íslands­deild Amnesty Internati­onal þakkar samvinnuna sem hún átti við hags­muna­hópa sem og þeim tæki­færum sem gáfust til að eiga samtal við íslensk stjórn­völd. Íslands­deildin heldur áfram að þrýsta á stjórn­völd og krefjast þess að börn sem fæðast með ódæmi­gerð kynein­kenni njóti mann­rétt­inda og að borin sé full virðing fyrir líkam­legri frið­helgi þeirra og sjálfs­ákvörð­un­ar­rétti.

BREYTING Á LÖGUM UM NAUÐGUN Á GRIKKLANDI OG VÆNT­ANLEG Í DANMÖRKU

Ný lög í Grikklandi kveða nú á um að kynlíf án samþykkis er nauðgun. Danmörk hefur skuld­bundið sig til að feta í sömu fótspor. Þrot­laus barátta og hugrekki þolenda nauðgana og annarra hafa hrundið af stað breyt­ingum víðs vegar í Evrópu. Ísland var fyrst Norð­ur­land­anna til að breyta lögunum á þessa leið. Amnesty Internati­onal gaf út skýrslu um stöðu mála í Danmörku og þrýstu netákalls­fé­lagar á dönsk stjórn­völd að gera breyt­ingar.

AFGLÆPA­VÆÐING Á SAMBÖNDUM SAMKYN­HNEIGÐRA Í BOTSVANA

Úrskurður hæsta­réttar í Botsvana um afglæpa­væð­ingu á samböndum samkyn­hneigðra varð að veru­leika eftir mikla baráttu ýmissa samtaka, þeirra á meðal Amnesty Internati­onal. Samtök samkyn­hneigðra fóru með málið fyrir dómstóla til að fá skorið úr um hvort refsilög sem banna „ónátt­úrleg brot“ og „ósið­samleg athæfi“ samrýmdust stjórn­ar­skránni. Þessi lög, sem eru arfleifð frá nýlendu­tím­anum, bönnuðu kynferð­is­legar athafnir milli full­orð­inna einstak­linga af sama kyni og sköpuðu umhverfi þar sem mismunun, áreitni og ofbeldi gegn einstak­lingum sem taldir voru samkyn­hneigðir voru látin viðgangast.

GRETA THUN­BERG SENDI­FULL­TRÚI SAMVISK­UNNAR HJÁ AMNESTY INTERNATI­ONAL

Greta Thun­berg, lofts­lags­að­gerðasinni, og Friday for Future-hreyfing skóla­barna voru heiðruð með viður­kenn­ingu Amnesty Internati­onal, Sendi­full­trúi samvisk­unnar, árið 2019. Þetta er æðsti heiður samtak­anna og viður­kenning fyrir forystu og hugrekki í þágu mann­rétt­inda.

HÆTT VIÐ AFTÖKU UNGS MANNS SEM HAND­TEKINN VAR 13 ÁRA í SÁDI-ARABÍU

Eftir að athygli var vakin á máli Murtaja Qureiris, ungs manns í Sádi-Arabíu, var hætt við aftöku hans. Hann hafði verið hand­tekinn 13 ára gamall fyrir brot sem hann átti að hafa framið þegar hann var 10 ára.

VOPNA­VIЭSKIPTI STÖÐVUÐ TIL ÁTAKA­SVÆÐA Í JEMEN

Amnesty Internati­onal hefur barist fyrir því að stöðva vopna­flutning til átaka­svæða í Jemen. Breskur dómstóll kvað upp tíma­móta­úrskurð í maí þess efnis að ákvörðun breskra stjórn­valda um að leyfa vopna­flutn­inga til Sádi-Arabíu væri ólögmæt. Samtökin Campaign Against Arms Trade (CAAT) höfðuðu dómsmál vegna þess­arar ákvörð­unar stjórn­valda  árið 2016. Amnesty Internati­onal, Human Rights Watch og Right Watch UK komu inn í dóms­málið í febrúar 2017.

Banda­ríska þingið samþykkti einnig að stöðva vopna­sölu að verð­mæti 8 millj­arða til Sádi-Arabíu og Sameinuðu arab­ísku fursta­dæm­anna. Belgía dró til baka leyfi fyrir vopna­út­flutn­ingi til Sádi-Arabíu og kallaði eftir rann­sókn í kjölfar þess að Amnesty Internati­onal sýndi fram á að belgísk vopn væru notuð af vopn­uðum hópum á svæðinu. Sviss og Ítalía fylgdu í kjöl­farið.

BRESKUR AÐGERÐASINNI SEM AÐSTOÐAÐI FLÓTTA­FÓLK SÝKN­AÐUR

Tom Ciot­kowski, breskur aðgerðasinni fyrir mann­rétt­indum, var ákærður fyrir óhlýðni og árás fyrir að  taka upp mynd­band af hrotta­legri fram­komu lögreglu þegar hann var sjálf­boða­liði í þágu flótta-og farand­fólks í franska bænum Calais. Tom var loks sýkn­aður. „Það verður að binda enda á fjand­sam­legar aðstæður farands­fólks. Þess í stað verður að finna lausn á ástandinu sem byggir á samkennd,“ segir Tom Ciot­kowski.

AÐGERÐASINNI LEYSTUR ÚR HALDI Í TÉTÉNÍU

Oyub Titiev, baráttu­maður fyrir mann­rétt­indum var leystur úr haldi í Téténíu eftir eitt og hálft ár bak við lás og slá. Oyub var dæmdur í fimm ára fang­elsi fyrir falskar ákærur. Stuðn­ings­að­ilar Amnesty Internati­onal víðs vegar um heiminn kölluðu eftir lausn hans í kringum heims­meist­ar­mótið í Rússlandi árið 2018. „Ég er þakk­látur öllum þeim sem studdu mig, án ykkar aðstoðar hefði ég ekki verið leystur úr haldi. Enn og aftur, eitt stórt takk!“

FRÍAR GETN­AЭAR­VARNIR OG RÁÐGJÖF UM BARNEIGNIR GJALD­FRJÁLS Í BÚRKÍNA FASÓ 

Frá og með 1. júní 2019 urðu getn­að­ar­varnir fríar og ráðgjöf um barneignir gjald­frjáls í Búrkína Fasó. Þetta er í samræmi við það sem Amnesty Internati­onal kallaði eftir í herferð sinni Minn líkami, minn réttur árið 2015. Þegar fjár­hags­legar hindr­anir eru fjar­lægðar hafa konur betri aðgang að getn­að­ar­vörnum og aukinn sjálfs­ákvörð­un­ar­rétt yfir eigin líkama.

 

Júlí

GOOGLE HÆTTIR VIÐ LEYNI­LEGT VERK­EFNI FYRIR KÍNA

Í áheyrn banda­ríska þingsins stað­festi fram­kvæmda­stjóri Google að fyrir­tækið hefði hætt við Dragonfly, leyni­legt verk­efni til að þróa leit­arvél sem myndi auðvelda kínverskum stjórn­völdum strangt eftirlit og ritskoðun á netinu. Amnesty Internati­onal ásamt fjölda starfs­fólks Google kallaði eftir því að hætt yrði við verk­efnið. Netákalls­fé­lagar Íslands­deildar Amnesty Internati­onal voru á meðal þeirra.

AFTÖKUR STÖÐV­AÐAR Í SRI LANKA

Amnesty Internati­onal náði þeim árangri að stöðva tíma­bundið fyrstu aftökur í Sri Lanka í 43 ár með fjöl­miðla­at­hygli, stuðn­ingi við mótmæli og þrýst­ingi á stjórn­völd. Hæstiréttur mun í lok október fara yfir stöðu málsins á ný en núna í desember hafa aftökur enn ekki átt sér stað. Netákalls­fé­lagar Íslands­deildar Amnesty Internati­onal voru á meðal þeirra sem kölluðu eftir stöðvun á aftökum.

ÁLYKTUN ÍSLANDS Í MANN­RÉTT­INDA­RÁÐI VEGNA FILIPPS­EYJA SAMÞYKKT

Ályktun Íslands í Mann­rétt­inda­ráði Sameinuðu þjóð­anna vegna stöðu mann­rétt­inda á Filipps­eyjum var samþykkt. Þetta er í fyrsta skipti í sögu ráðsins sem lögð er fram ályktun um Filipps­eyjar. Íslensk stjórn­völd sýndu ábyrgð í verki með því að leggja fram álykt­unina og þar með fylgja eftir frum­kvæði í gagn­rýni sinni á filipps­eysk stjórn­völd.

Með samþykkt álykt­un­ar­innar lýsir mann­rétt­indaráð yfir áhyggjum sínum af ástandinu á Filipps­eyjum og hvetur stjórn­völd meðal annars til að stöðva aftökur án dóms og laga og draga þá til ábyrgðar sem hafa staðið fyrir slíku.

Ágúst

BLOGGARI FÆR FRELSI Á NÝ EFTIR FIMM ÁR Í FANG­ELSI Í MÁRIT­ANÍU

Mohamed Mkhaïtir, bloggari í Márit­aníu, var leystur úr haldi en hann hafði verið dæmdur til dauða og honum haldið í fang­elsi að geðþótta í rúm fimm ár eftir að hafa birt blogg­færslu sem fjallaði um mismunun byggða á erfða­stétt í landinu. „Án ykkar fram­taks hefði ég aldrei verið leystur úr haldi. Á þessum fimm árum í fang­elsinu sá ég sólina aðeins í sex skipti. Margt hefur breyst á síðustu fimm árum og ég er enn að aðlagast lífinu utan fang­els­isins. Núna er ég frjáls og það er von mín að ég geti haldið áfram skóla­göngu minni.“

UNG KONA SÝKNUÐ FYRIR MORÐ VEGNA FÓST­UR­MISSIS Í EL SALVADOR

Það var sigur fyrir mann­rétt­indi þegar Evelyn Hernández var sýknuð fyrir rétti 19. ágúst síðast­liðinn. Hún var 21 árs þegar neyð­ar­tilvik á heimili Evelyn í apríl 2016 leiddi til fóst­ur­missis hennar. Starfs­fólk á vakt tilkynnti Evelyn Hernández til lögreglu þegar hún kom á sjúkrahús til aðhlynn­ingar. Hún var dæmd í 30 ára fang­elsi fyrir morð. Þung­un­arrof er ólög­legt í öllum tilvikum í El Salvador. Konur sem lenda í neyð­ar­til­vikum á meðgöngu hafa í mörgum tilfellum verið sakfelldar fyrir brot á þessum lögum.

AUKIN RÉTT­INDI KVENNA Í SÁDI-ARABÍU

Í áratugi hefur Amnesty Internati­onal beint kast­ljósi sínu að víðtækri mismunun sem konur í Sádi-Arabíu hafa þurft að þola vegna kúgandi kerfis sem skyldar konur til að lúta að forsjá karl­manna. Í ágúst tilkynnti Sádi-Arabía miklar umbætur á sumum af þeim skorðum sem settar voru á konur, þar á meðal leyfi til að fá sitt eigið vega­bréf og gera konum þannig kleift að ferðast án samþykkis karl­kyns forráða­manns. Breyt­ing­arnar veita konum einnig rétt til að skrá hjóna­band, skilnað, fæðingu og dauðs­fall auk þess að fá aðgang að fjöl­skyldu­gögnum.

Þessar breyt­ingar eru fagn­að­ar­efni en Amnesty Internati­onal heldur áfram að berjast fyrir lausn kvenna sem sitja í fang­elsi fyrir kven­frels­is­bar­áttu sína.

September

TRANS KONA FRÁ EL SALVADOR Í LEIT AÐ VERND Í BANDA­RÍKJ­UNUM LEYST ÚR HALDI

Alej­andra Barrera, trans kona og aðgerðasinni, var leyst úr haldi þann 6. sept­ember eftir tæp tvö ár í varð­haldi. Alej­andra flúði ofbeldi fyrir að vera trans kona í El Salvador og sótti um alþjóð­lega vernd í nóvember 2017 í Banda­ríkj­unum. Mánuði síðar var hún sett í varð­hald hjá banda­rísku innflytj­enda- og toll­gæsl­unni. Lausn hennar er árangur margra aðila en ekki síst vegna stöðugs þrýst­ings Amnesty Internati­onal.

Alej­andra þakkaði Amnesty Internati­onal og samstarfs­aðila okkar Translatin@ Coalition. „Jafnvel þó ég hafi ekki hitt ykkur, þá er það mér heiður  að senda ykkur þessi skilaboð um kærleik, baráttu og hugrekki. Stuðn­ingskveðjur ykkar gáfu mér styrk til að halda áfram þessari erfiðu baráttu. Þakka ykkur kærlega fyrir, ég mun halda áfram barátt­unni.“ 

1208 Netákalls­fé­lagar Amnesty Internati­onal skrifuðu undir mál hennar í júlí 2018.

SÝRLEND­INGUR SAMEINAST FJÖL­SKYLDU SINNI Á NÝ Á KÝPUR

Yfir­völd á Kýpur leyfðu Ahmed H, sýrlenskum karl­manni sem var rang­lega sakfelldur í Ungverjalandi vegna misbeit­ingar á hryðju­verka­lögum, að sameinast fjöl­skyldu sinni á ný í lok sept­ember. Rúmlega 24 þúsund einstak­lingar tóku þátt í herferð Amnesty Internati­onal #BringA­h­med­Home til að kalla eftir því að Kýpur leyfði honum að snúa aftur heim.

Íslands­deild Amnesty Internati­onal vakti athygli á málinu árið 2017 eftir að hann var dæmdur í 10 ára fang­elsi og safnaði undir­skriftum til stuðn­ings máli hans.

Október

BLAÐA­KONA LEYST ÚR HALDI EFTIR AÐ HAFA VERIÐ ÁKÆRÐ FYRIR ÞUNG­UN­ARROF

Hajar Rais­souni var hand­tekin af marokkósku lögregl­unni 31. ágúst síðast­liðinn grunuð um að hafa gengist undir þung­un­arrof þrátt fyrir að engar sann­anir lægju fyrir. Hún var hand­tekin fyrir utan læknamið­stöð í Rabat ásamt unnusta sínum, lækni og tveimur starfs­mönnum læknamið­stöðv­ar­innar. Grunur lék á að hand­taka hennar hafi verið af póli­tískum toga og tengst störfum Hajar í blaða­mennsku. Hún ásamt hinum sem voru hand­tekin  voru leyst úr haldi 16. október. Mál hennar vakti athygli mann­rétt­inda­sam­taka innan­lands sem og utan. Þrýst­ingur Amnesty Internati­onal átti þátt í lausn hennar og ýtti undir umræðu um rétt­indi kvenna og tján­ing­ar­frelsi í Marokkó. Mál hennar var í netákalli Íslands­deildar Amnesty Internati­onal í sept­ember.

AFGLÆPA­VÆÐING ÞUNG­UN­AR­ROFS Á NORÐUR-ÍRLANDI

Þann 22. október 2019, var hætt við allar málsóknir vegna þung­un­ar­rofs á Norður-Írlandi. Bresk stjórn­völd eru skyldug til að tryggja að reglu­gerð fyrir öruggt þung­un­arrof verði tilbúin 31. mars 2020. Það þýðir m.a. að felldar verða niður allar ákærur í máli móður sem stóð frammi fyrir fang­elsis­vist fyrir kaup á lyfjum til þung­un­ar­rofs handa 15 ára dóttur sinni.

Nóvember

HÁSKÓLA­KENNARI SEM ÁKÆRÐUR VAR FYRIR BÓK LEYSTUR ÚR HALDI Í EÞÍÓPÍU

Þann 17. ágúst var háskóla­kenn­arinn Firew Bekele hand­tekinn og ákærður samkvæmt harka­legum hryðju­verka­lögum (e. Anti-Terr­orism Proclamation) Eþíópíu. Lögin hafa verið notuð til að bæla niður andstöðu. Firew Bekele er ákærður fyrir að skrifa bók sem gagn­rýnir forsæt­is­ráð­herra Eþíópíu, Abiy Ahmeden, en hann neitar að hafa skrifað bókina. Yfir­maður mann­rétt­inda­ráðs Eþíópíu heim­sótti hann í fang­elsi og kallaði eftir lausn hans í kjölfar þess að Amnesty Internati­onal gaf út ákall um mál hans. Mál Firew Bekele var hluti af SMS-aðgerðaneti Íslands­deild­ar­innar í sept­ember.

TRANS FÓLK FÆR VERND LÖGREGLU Á VIÐBURÐI Í ÚKRAÍNU

Lögreglan verndaði trans aðgerða­sinna í höfuð­borg Úkraínu í göngu sinni á minn­ing­ar­degi trans fólks. Lögreglan kom í veg fyrir að hópar, sem hafa opin­ber­lega verið með hatursorð­ræðu gegn trans fólki, næðu að trufla viðburðinn eins og þeir höfðu ætlað sér. Árið áður hafði lögreglan ekki veitt þátt­tak­endum vernd sem varð til þess að haturs­hópar náðu að koma í veg fyrir viðburðinn.

Lestu einnig