Góðar fréttir
25. júlí 2019Bandaríski tölvurisinn Google sendi nýverið frá sér yfirlýsingu þess efnis að fyrirtækið væri hætt við að hleypa af stokkunum verkefninu Dragonfly, ritskoðaðri leitarvél fyrir Kína. Íslandsdeild Amnesty International tók upp málið í netákalli og SMS-aðgerðaneti í desember 2018 þar sem krafist var að fallið yrði frá verkefninu.
Google vann leynilega að verkefninu Dragonfly en í því fólst að hleypa leitarvélinni aftur af stokkunum í Kína í samvinnu við kínversk stjórnvöld sem nú þegar hafa virkt eftirlit með netnotkun þar í landi.
Kínverskum Google-notendum átti að vera meinaður aðgangur að vefsíðum eins og Wikipedia og Facebook og leitarorð eins og ,,mannréttindi” bönnuð. Kínversk yfirvöld hefðu jafnvel getað njósnað um notendur Google í Kína en þau senda fólk reglulega í fangelsi fyrir það eitt að deila skoðunum sínum á netinu.
„Þetta er í fyrsta sinn sem Google hefur staðfest með skýrum hætti að fyrirtækið hafi alfarið fallið frá verkefninu Dragonfly. Það eru góðar fréttir að hætt hafi verið opinberlega við þetta hörmulega verkefni og má það að mestu leyti þakka kröfu hundraða starfsmanna Google, ríflega 70 mannréttindasamtaka og þúsunda einstaklinga um heim allan um að fyrirtækið virti mannréttindi með því að hverfa frá Dragonfly-verkefninu.“
Joe Westby, rannsakandi á sviði tækni og mannréttinda hjá Amnesty International
Í yfirlýsingunni er ekki minnst á að fallið verði algjörlega frá ritskoðaðri leitarvél og hefur bandaríska tölvufyrirtækið í raun og veru ekki enn útilokað samstarf við Kína í framtíðinni í álíka verkefnum.
„Google verður að ganga skrefi lengra og skuldbinda sig til að hjálpa ekki Kína við umfangsmikla ritskoðun og eftirlit. Undanbrögð fyrirtækisins vegna málsins í byrjun hafa skapað rými fyrir misbeitingu í framtíðinni. Framkvæmdastjórinn, Sundar Pichai, þarf að senda frá sér yfirlýsingu um að fyrirtækið taki ekki þátt í verkefnum með Kína sem grafi á nokkurn hátt undan mannréttindum.“
Joe Westby, rannsakandi á sviði tækni og mannréttinda hjá Amnesty International
Íslandsdeild Amnesty International tók upp málið í desember 2018. Þá var mikil ólga innan Google vegna þessara áforma og 530 starfsmenn lýstu yfir andstöðu sinni við verkefnið. Til að sýna samstöðu með starfsfólki Google skrifuðu 1792 einstaklingar undir ákall Íslandsdeildarinnar þar sem þess var krafist að hætt yrði við verkefnið.
Við þökkum kærlega fyrir stuðninginn!
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu