Fréttir
16. júlí 2019Íslandsdeild Amnesty International fagnar ályktun Íslands í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna vegna stöðu mannréttinda á Filippseyjum. Þetta er í fyrsta skipti í sögu ráðsins sem lögð er fram ályktun um Filippseyjar. Íslensk stjórnvöld sýndu ábyrgð í verki með því að leggja fram ályktunina og þar með fylgja eftir frumkvæði í gagnrýni sinni á filippseysk stjórnvöld.
Með samþykkt ályktunarinnar lýsir mannréttindaráð yfir áhyggjum sínum af ástandinu á Filippseyjum og hvetur stjórnvöld meðal annars til að stöðva aftökur án dóms og laga og draga þá til ábyrgðar sem hafa staðið fyrir slíku. Einnig eru filippseysk stjórnvöld hvött til að sýna skrifstofu mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna samstarfsvilja en honum hefur verið falið að gera úttekt á stöðu mannréttindamála á Filippseyjum sem lögð verður fyrir ráðið á næsta ári.
Amnesty International telur ályktunina fela í sér von fyrir þúsundir fjölskyldna á Filippseyjum auk fjölda annarra Filippseyinga sem hafa mótmælt grimmdarlegri stefnu Rodrigo Duterte forseta landsins í „stríðinu gegn vímuefnum“. Um er að ræða áríðandi skref í átt að réttlæti og ábyrgðarskyldu.
Filippseysk stjórnvöld hafa brugðist skyldu sinni til að draga þá aðila til ábyrgðar sem staðið hafa fyrir aftökum án dóms og laga. Mannréttindaráð hefur með ályktun sinni sent skýr skilaboð um að alþjóðasamfélagið líti ekki fram hjá refsileysi vegna aftaka án dóms og laga og annarra alvarlegra mannréttindabrota.
„Amnesty International hvetur stjórnvöld á Filippseyjum til að sýna mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna samstarfsvilja við gerð skýrslunnar og grípa til nauðsynlegra aðgerða til að stöðva þessi hrottafengnu morð sem eru orðin aðalsmerki stjórnar Duterte forseta. Ef það verður ekki gert getur Mannréttindaráðið gripið til frekari og öflugri aðgerða. Þrýstingurinn á þá sem standa að baki þessarar grimmdarlegu stefnu fer einungis vaxandi.“
Nicholas Bequelin, svæðisstjóri Amnesty International í Austur- og Suðaustur-Asíu.
Að lokum má nefna að ályktunin kemur meðal annars í kjölfar áralangra herferða innlendra og alþjóðlegra félagasamtaka, þar á meðal Amnesty International.
Stuttu fyrir ályktunina gaf Amnesty International út skýrslu þar sem skjalfest voru brot og glæpir samkvæmt alþjóðalögum sem enn eiga sér stað í tengslum við stefnu stjórnvalda um „stríðið gegn vímuefnum“.
Skýrsluna má nálgast hér.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu