Fréttir

16. júlí 2019

Íslands­deild Amnesty Internati­onal fagnar ályktun Íslands í Mann­rétt­inda­ráði Sameinuðu þjóð­anna

Íslands­deild Amnesty Internati­onal fagnar ályktun Íslands í Mann­rétt­inda­ráði Sameinuðu þjóð­anna vegna stöðu mann­rétt­inda á Filipps­eyjum. Þetta er í fyrsta skipti í sögu ráðsins sem lögð er fram ályktun um Filipps­eyjar. Íslensk stjórn­völd sýndu ábyrgð í verki með því að leggja fram álykt­unina og þar með fylgja eftir frum­kvæði í gagn­rýni sinni á filipps­eysk stjórn­völd.

Með samþykkt álykt­un­ar­innar lýsir mann­rétt­indaráð yfir áhyggjum sínum af ástandinu á Filipps­eyjum og hvetur stjórn­völd meðal annars til að stöðva aftökur án dóms og laga og draga þá til ábyrgðar sem hafa staðið fyrir slíku. Einnig eru filipps­eysk stjórn­völd hvött til að sýna skrif­stofu mann­rétt­inda­full­trúa Sameinuðu þjóð­anna samstarfs­vilja en honum hefur verið falið að gera úttekt á stöðu mann­rétt­inda­mála á Filipps­eyjum sem lögð verður fyrir ráðið á næsta ári.

 

Amnesty Internati­onal telur álykt­unina fela í sér von fyrir þúsundir fjöl­skyldna á Filipps­eyjum auk fjölda annarra Filipps­ey­inga sem hafa mótmælt grimmd­ar­legri stefnu Rodrigo Duterte forseta landsins í „stríðinu gegn vímu­efnum“. Um er að ræða áríð­andi skref í átt að rétt­læti og ábyrgð­ar­skyldu.

Filipps­eysk stjórn­völd hafa brugðist skyldu sinni til að draga þá aðila til ábyrgðar sem staðið hafa fyrir aftökum án dóms og laga. Mann­rétt­indaráð hefur með ályktun sinni sent skýr skilaboð um að alþjóða­sam­fé­lagið líti ekki fram hjá refsi­leysi vegna aftaka án dóms og laga og annarra alvar­legra mann­rétt­inda­brota.

„Amnesty Internati­onal hvetur stjórn­völd á Filipps­eyjum til að sýna mann­rétt­inda­full­trúa Sameinuðu þjóð­anna samstarfs­vilja við gerð skýrsl­unnar og grípa til nauð­syn­legra aðgerða til að stöðva þessi hrotta­fengnu morð sem eru orðin aðals­merki stjórnar Duterte forseta. Ef það verður ekki gert getur Mann­rétt­inda­ráðið gripið til frekari og öflugri aðgerða. Þrýst­ing­urinn á þá sem standa að baki  þess­arar grimmd­ar­legu stefnu fer einungis vaxandi.“

Nicholas Bequ­elin, svæð­is­stjóri Amnesty Internati­onal í Austur- og Suðaustur-Asíu.

Að lokum má nefna að álykt­unin kemur meðal annars í kjölfar áralangra herferða innlendra og alþjóð­legra félaga­sam­taka, þar á meðal Amnesty Internati­onal.

Stuttu fyrir álykt­unina gaf Amnesty Internati­onal út skýrslu þar sem skjalfest voru brot og glæpir samkvæmt alþjóða­lögum sem enn eiga sér stað í tengslum við stefnu stjórn­valda um „stríðið gegn vímu­efnum“.

Skýrsluna má nálgast hér.

Lestu einnig