Yfirlýsing
25. júní 2019Íslandsdeild Amnesty International fagnar löngu tímabærum lögum um kynrænt sjálfræði sem samþykkt voru á Alþingi í dag. Lögin eru gríðarlega mikilvægt skref í átt að koma Íslandi í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks og að tryggja rétt þess bæði í lögum og framkvæmd.
Íslandsdeild Amnesty International fagnar samvinnunni sem hún átti við hagsmunahópa sem og þeim tækifærum sem gáfust til að eiga samtal við íslensk stjórnvöld. Hátt í 7000 einstaklingar skrifuðu undir ákall deildarinnar um verndun mannréttinda intersex barna á Íslandi og var þeim undirskriftum komið til allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis sem hafði frumvarpið um kynrænt sjálfræði til umfjöllunar.
Lögin afnema úreltar kröfur um lagalega kynskráningu og tryggja kynrænt sjálfræði fyrir trans fólk þar sem horfið hefur verið frá því að krefjast geðgreiningar á svokölluðum „kynáttunarvanda“ til að fá lagalega viðurkenningu á kyni.
Lögunum er ætlað að standa vörð um rétt einstaklinga til líkamlegrar friðhelgi en Íslandsdeild Amnesty International harmar að skrefið hafi ekki verið stigið til fulls þar sem í lögunum er ekki að finna ákvæði sem kemur í veg fyrir ónauðsynlegar, óafturkræfar og inngripsmiklar aðgerðar á börnum sem fæðast með ódæmigerð líffræðileg kyneinkenni. Það verður ekki litið fram hjá því að lögin skortir gríðarlega mikilvæga vernd fyrir börn sem fæðast með ódæmigerð líffræðileg kyneinkenniog falla ekki undir staðlaðar kynjahugmyndir. Þar til að löggjafinn verndar þessi börn gegn ónauðsynlegum og óafturkræfum læknainngripum kunna þau að sæta mismunun þar sem þau eru látin gangast undir skurðaðagerðir eða hormónameðferðir í þeim tilgangi að normalísera líkama þeirra.
Fyrirheit eru um að tillögur að nýrri löggjöf verði lagðar fram innan árs og gefur það okkur von um að íslensk stjórnvöld nýti þann tíma til að tryggja raunverulega mannréttindavernd fyrir börn með ódæmigerð kyneinkenni.
Íslandsdeild Amnesty International mun halda áfram að þrýsta á stjórnvöld til að krefjast þess að börn sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni njóti mannréttinda og að borin sé full virðing fyrir líkamlegri friðhelgi þeirra og sjálfsákvörðunarrétti.
Stjórn Íslandsdeildar Amnesty International
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu