Kvenréttindafrömuðurinn Justyna Wydrzyńska á yfir höfði sér þriggja ára fangelsisvist af þeirri ástæðu einni að hún styður rétt til öruggs þungunarrofs.
Það má skilja ákærur gegn Justynu sem refsingu fyrir baráttu hennar um að þungunarrof verði gert löglegt og öruggt í Póllandi.
Pólskum yfirvöldum ber að afglæpavæða þungunarrof, draga til baka ákærur á hendur Justynu og láta af þöggunartilburðum gegn aðgerðasinnum sem berjast fyrir kyn- og frjósemisréttindum.
Húsleit var gerð heima hjá Justynu að fyrirskipan saksóknara og fjöldi eigna hennar, þar á meðal öll samskiptatæki, gerður upptækur. Saksóknara hafði borist upplýsingar um þátttöku hennar við að aðstoða þungaða konu sem vildi rjúfa þungun sjálf með lyfjum sem ætluð eru til heimanotkunar. Að rjúfa eigin þungun er ekki glæpur í Póllandi.
Justyna er ákærð fyrir að veita aðstoð við þungunarrof og hafa í fórum sínum ólögleg lyf í þeim tilgangi að koma þeim á markað.
Pólsk lög leyfa ekki þungunarrof nema þegar líf eða heilsa þungaðs einstaklings er í hættu eða þegar þungunin er afleiðing nauðgunar eða sifjaspells. Lögin eru skaðleg og refsa aðilum sem framkvæma þungunarrof. Það stofnar lífi þungaðra einstaklinga í hættu að hafa ekki aðgengi að öruggu þungunarrofi.
Justyna er doula og aðgerðasinni. Doulur eru stuðningsaðilar fyrir, í og eftir fæðingu og styðja við þarfir þungaðra einstaklinga. Hlutverk doula er líka að styðja skjólstæðinga sína í gegnum þungunarrof. Justyna hefur talað opinskátt um eigin reynslu af þungunarrofi og er ein stofnenda pólska baráttuhópsins Abortion Dream Team, sem veitir stuðning og upplýsingar um þungunarrof. Starf baráttuhópsins felst þar á meðal í að veita hlutlausar og sannreyndar upplýsingar um framkvæmd þungunarrofs heima fyrir með lyfjum og byggja á tilsögn frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni.
Pólskum yfirvöldum ber að afglæpavæða þungunarrof og styðja frekar en refsa manneskjum sem leggja sig fram við að tryggja heilsu einstaklinga sem leita eftir þungunarrofi. Aðgangur að þungunarrofi er hluti af kyn- og frjósemisréttindum og aðilar sem veita konum, stúlkum og fólki slíka aðstoð eiga ekki að þurfa að lifa í ótta við ákærur.
Skrifaðu undir ákallið og krefstu þess að pólsk yfirvöld dragi til baka ákærur á hendur kvenréttindafrömuðinum Justynu Wydrzyńska og afglæpavæði þungunarrof.