Góðar fréttir
8. mars 2019Réttindi kvenna og stúlkna er stór þáttur í starfi Amnesty International. Hér eru fimm sigrar í málefnum sem Amnesty International hefur barist fyrir ásamt mörgum aðgerðasinnum úr ýmsum grasrótarhreyfingum.
Fríar getnaðarvarnir og sigur gegn þvinguðum hjónaböndum í Búrkína Fasó
Frá og með 1. júní 2019 verða getnaðarvarnir fríar og ráðgjöf um barneignir gjaldfrjáls í Búrkína Fasó. Stjórnvöld tilkynntu um áformin í desember 2018 og eru þau í samræmi við það sem Amnesty International kallaði eftir í herferð sinni Minn líkami, minn réttur árið 2015.
Fríar getnaðarvarnir hafa gífurleg áhrif á líf kvenna eins Korotimi, „stundum eigum við engan pening fyrir getnaðarvörnum. Það hefur orðið til þess að ég á átta börn,“ tjáði hún Amnesty International árið 2015. Þegar fjárhagslegar hindranir eru fjarlægðar hafa konur betri aðgang að getnaðarvörnum og aukinn sjálfsákvörðunarrétt yfir eigin líkama.
Búrkína Fasó hefur að auki gert það auðveldara að ákæra fyrir þvinguð hjónabönd þar sem lögin viðurkenna nú einnig óskráð hjónabönd (eins og á við um meirihluta þvingaðra hjónabanda) en ekki aðeins þau hjónabönd sem fara í gegnum stjórnsýslu.
Netofbeldi á Twitter hafði slæm áhrif á viðskiptin
Með herferð Amnesty International #ToxicTwitter sem hófst í mars 2018 sýndum við hvernig netofbeldi hefur alvarlegar afleiðingar fyrir tjáningarfrelsi kvenna, þá sérstaklega fyrir litaðar konur, hinsegin konur og konur sem tilheyra fleiri en einum minnihlutahópi. Í kjölfar skýrslu Amnesty International kynnti Twitter stefnu sem snýr að hatursfullri framkomu þar sem áhersla var á að banna lítilsvirðandi ummæli og í fyrsta sinn gaf fyrirtækið út gögn um hvernig það framfylgir sínum eigin reglum en það var í samræmi við ákall okkar. Twitter gaf þó ekki út sundurliðuð gögn svo við tókum málin í okkar eigin hendur og settum af stað okkar eigin „tröllavakt“, nýstárlegt verkefni þar sem hópur fólks safnaði gögnum um gríðarlegt umfang netofbeldis gegn konum og í hvaða mynd það birtist.
Í samstarfi við tæknisérfræðinga og rúmlega 6.500 aðgerðasinna í 150 löndum bjuggum við til einn stærsta gagnagrunn um netofbeldi gegn konum. Niðurstöður okkar sem voru birtar í desember 2018 voru sláandi. Á hálfrar mínútu fresti verður kona fyrir netofbeldi á Twitter. Svartar konur eru 84% líklegri til að verða fyrir ofbeldisfullum tístum heldur en hvítar konur.
Niðurstöður okkar urðu til þess að hlutabréf Twitter lækkuðu aðeins nokkrum dögum síðar. Enn á ný var netofbeldi á Twitter áberandi í fjölmiðlum sem setti enn meiri þrýsting á Twitter til að bregðast við ákalli okkar.
Meðgöngurof á Írlandi
Í kjölfar sögulegrar þjóðaratkvæðagreiðslu í maí 2018 var konum á Írlandi loksins veitt aðgengi að meðgöngurofi í janúar 2019 sem var stór sigur fyrir réttindi kvenna. Þessi magnaði árangur varð til þess að bann við meðgöngurofi í stjórnarskránni var dregið til baka með því að leyfa það fyrstu 12 vikur meðgöngu og við sérstakar aðstæður.
Árangurinn kom eftir áralanga vinnu fjölda aðgerðasinna, þar á meðal Amnesty International. Árið 2015 hófum við herferð til að vekja athygli á málefninu. Rannsókn okkar, aðgerðir og þrýstivinna átti þátt í að sannfæra stjórnvöld að leggja málið til þjóðaratkvæðagreiðslu og innleiða lagabreytingarnar.
Herferð Amnesty International opnaði einnig rými fyrir konur til að deila reynslu sinni af meðgöngurofi til að draga úr skömm og smánun sem fylgdi því á Írlandi. Það varð til þess að áhrifaríkar samræður hófust og ýtti undir umræður um meðgöngurof. Á endanum fengu konur þar í landi loks aukna vernd.
Tímamótaúrskurður gegn kynferðisofbeldi í Mexíkó
Mannréttindadómstóll Ameríku úrskurðaði í nóvember 2018 í máli 11 kvenna sem voru barðar, áreittar og nauðgað af hálfu öryggissveita Mexíkó eftir að hafa verið handteknar á kröfugöngu í maí 2006. Þrátt fyrir að Mexíkó viðurkenndi að hermennirnir hefðu notað óhóflega valdbeitingu var því hafnað að um væri að ræða kerfisbundið ofbeldi og skelltu því skuldinni þess í stað á einstaka gerendur. Dómstóllinn var ekki á sama máli og sagði að stjórnvöld væru ábyrg. Dómstóllinn taldi afdráttarlaust að kynferðisofbeldið sem konurnar urðu fyrir hefði verið pyndingar.
Amnesty hefur stutt þessar konur frá árinu 2006 með því að skjalfesta ofbeldið og setja af stað alþjóðlega herferð. Úrskurðurinn er ekki aðeins sigur fyrir konurnar heldur er mikilvægt fordæmi fyrir þolendur kynbundins ofbeldis af hálfu öryggissveita Mexíkó til að byggja mál sitt á.
Samþykki á Íslandi og Svíþjóð
Svíþjóð innleiddi ný lög 1. júlí 2018 þar sem kynlíf án samþykkis flokkast sem nauðgun. Þetta er gífurlega stórt skref fram á við fyrir konur í landinu eftir áralanga baráttu sem var drifin áfram af kvenréttindasamtökum og haldið á floti með #MeToo-hreyfingunni. Amnesty átti einnig sinn þátt í að ná fram þessum tímamótabreytingum með því að fylgjast með málum og varpa ljósi á glufur í nauðgunarlögum í Svíþjóð og á öðrum Norðurlöndum.
Svíþjóð var áttunda landið í Vestur-Evrópu til að innleiða þessi lög um samþykki og fylgdi þannig í fótspor Íslands. Aðgerðasinnar, þar á meðal frá Amnesty International, halda áfram að kalla eftir samþykki. Búist er við því að Danmörk fylgi í fótsporin og yfirvöld í löndum eins og Finnlandi, Grikklandi, Spáni, Portúgal og Slóveníu eru einnig að íhuga slíkar breytingar.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu