Skýrslur
21. apríl 2021Samkvæmt árlegri skýrslu Amnesty International um dauðarefsinguna kom kórónuveirufaraldurinn ekki í veg fyrir aftökur í 18 löndum árið 2020. Þrátt fyrir fækkun á heimsvísu voru nokkur lönd sem beittu dauðarefsingunni og fjölguðu jafnvel aftökum á sama tíma og heimurinn einbeitti sér að því að vernda fólk gegn skæðri veiru.
Dauðarefsingin 2020:
Dauðarefsingin á tímum kórónuveirufaraldursins
Egyptaland þrefaldaði aftökur miðað við árið áður. Kína tilkynnti að dauðarefsingunni yrði beitt gegn brotum á sóttvarnarreglum og er vitað um einn karlmann sem var dæmdur til dauða og tekinn af lífi í kjölfarið. Ríkisstjórn Trumps hóf á ný aftökur á föngum í fangelsum á vegum alríkisins í Bandaríkjunum eftir 17 ára hlé og tók af lífi tíu einstaklinga á innan við hálfu ári. Indland, Óman, Katar og Taívan hófu einnig aftökur á ný.
Takmarkanir í kórónuveirufaraldrinum skerti lögfræðilega aðstoð og réttinn til sanngjarnra réttarhalda í nokkrum löndum, þar á meðal í Bandaríkjunum þar sem verjendur sögðust ekki geta unnið mikilvæga rannsóknarvinnu eða hitt skjólstæðinga sína í eigin persónu.
„Dauðarefsingin er grimmileg refsing og aftökur í miðjum heimsfaraldri sýnir enn frekar hversu grimmileg hún er. Að berjast gegn aftöku er erfitt á venjulegum tímum en fangar á dauðadeild áttu erfitt með að fá lögfræðilega aðstoð á staðnum og þeir lögfræðingar sem voru tilbúnir til þess þurftu óhjákvæmilega að setja heilsu sína í hættu. Beiting dauðarefsingarinnar við þessar aðstæður er einstaklega svívirðileg árás á mannréttindi.“
Agnès Callamard aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.
Flestar aftökur í fimm löndum
Kína er undanskilið í tölum Amnesty International um fjölda aftaka á heimsvísu þar sem fjölda aftaka og dauðadóma er haldið leyndum á þeim forsendum að upplýsingarnar séu ríkisleyndarmál. Kína trónir þó enn og aftur á toppnum með flestar aftökur í heiminum þar sem áætlað er að þær séu í þúsunda tali. Næst á eftir koma Íran (+246), Egyptaland (+107), Írak (+45) og Sádi-Arabía (+27) en í þessum fjórum löndum voru 88% af öllum staðfestum aftökum í heiminum árið 2020.
Egyptaland þrefaldaði fjölda aftaka á milli ára og er með þriðja mesta fjöldann árið 2020. Að minnsta kosti 23 fangar sem voru teknir af lífi voru dæmdir til dauða fyrir pólitískt ofbeldi í kjölfar verulegra ósanngjarnra réttarhalda og þvingaðra „játninga“ auk annarra mannréttindabrota. Flestar aftökur fóru fram í október og nóvember þegar egypsk stjórnvöld tóku af lífi að minnsta kosti 57 einstaklinga, 53 karlmenn og fjórar konur.
Í Íran hefur fjöldi aftaka farið lækkandi á milli ára þó að dauðarefsingunni sé beitt í auknum mæli sem pólitísku vopni gegn gagnrýnendum ríkisstjórnarinnar, mótmælendum og minnihlutahópum þrátt fyrir að það brjóti gegn alþjóðlegum lögum.
Samkvæmt alþjóðalögum og stöðlum er bannað að beita dauðarefsingunni fyrir glæpi sem tengjast ekki morði af yfirlögðu ráði. Enn og aftur var brotið gegn þessum alþjóðalögum í Asíu og á Kyrrahafssvæðinu.
Dauðarefsingunni var beitt fyrir brot í tengslum við vímuefni í Kína, Indónesía, Laos, Malasíu, Singapúr, Sri Lanka, Tælandi og Víetnam, fyrir spillingu í Kína og Víetnam og fyrir guðlast í Pakistan.
Bandaríkin voru eina landið í Norður- og Suður-Ameríku sem framkvæmdi aftökur árið 2020. Fyrsta aftakan á vegum alríkisins í 17 ár fór fram í júlí 2020 undir ríkisstjórn Trumps. Að auki fóru fram aftökur í fimm fylkjum Bandaríkjanna.
Lægsti fjölda aftaka í áratug
Árið 2020 fóru fram að minnsta kosti 483 aftökur í heiminum (fyrir utan lönd sem telja þessar upplýsingar vera ríkisleyndarmál eða skortur er á upplýsingum, í Kína, Norður-Kóreu, Sýrlandi og Víetnam). Þetta er lægsti fjöldi aftaka sem skráður hefur verið af Amnesty International í áratug.
Þetta er 26% fækkun frá árinu 2019 og 70% fækkun frá árinu 2015 þegar fjöldinn var með hæsta móti, samtals 1.634 aftökur.
Samkvæmt skýrslu Amnesty International má fækkunina rekja til fækkunar aftaka í nokkrum löndum og frestunar á aftökum vegna kórónuveirufaraldursins.
Í Sádi-Arabíu fækkaði fjölda aftaka um 85%, úr 184 árið 2019 niður í 27 árið 2020. Í Írak fækkaði þeim um rúman helming en þær voru 100 árið 2019 og 45 árið 2020.
Engar aftökur fóru fram í Barein, Hvíta-Rússlandi, Japan, Pakistan, Singapúr og Súdan eins og árið 2019.
Fjöldi dauðadóma, sem voru 1.477 talsins árið 2020, fækkaði einnig um 36% á heimsvísu frá árinu 2019. Fækkun var í 30 af 54 löndum sem vitað er að hafa kveðið upp dauðadóma á árinu 2020. Það virðist tengjast töfum á málsmeðferð í tengslum við kórónuveirufaraldurinn.
Þó voru nokkrar undantekningar þar á. Í Indónesíu fjölgaði dauðadómum um 46% á milli ára, úr 80 í 117. Í Sambíu voru kveðnir upp 119 dauðadómar sem voru 18 fleiri en árið á undan og mesti fjöldinn í Afríku sunnan Sahara.
Afnám dauðarefsingarinnar
Í apríl 2021 hafa 108 lönd afnumið dauðarefsinguna fyrir alla glæpi og 144 lönd hafa afnumið hana í lögum eða framkvæmd. Í Tjad og Colorado-fylki í Bandaríkjunum var dauðarefsingin afnumin á árinu 2020. Kasakstan skuldbatt sig einnig til að afnema dauðarefsinguna og Barbados afnam endanlega lögboðna dauðarefsingu.
„Þrátt fyrir að sumar ríkisstjórnir héldu áfram að beita dauðarefsingunni var heildarmyndin fyrir 2020 jákvæð. Heimsbyggðin er enn nær því að þessi grimmilega, ómannúðlega og niðurlægjandi refsing heyri sögunni til. Nú styðja 123 ríki heims, sem hafa aldrei verið fleiri, ákall Sameinuðu þjóðanna um að stöðva aftökur. Þrýstingurinn á ríki að fylgja í kjölfarið hefur aldrei verið meiri. Virginíu-fylki í Bandaríkjunum var það fyrsta af Suðurríkjunum til að afnema dauðarefsinguna og á Bandaríkjaþingi eru nokkur frumvörp um að afnema dauðarefsinguna á vegum alríkisins. Amnesty International kallar eftir því að Bandaríkjaþing styðji löggjöf um að afnema dauðarefsinguna“
Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International
Amnesty International kallar eftir því að öll lönd sem ekki hafa afnumið dauðarefsinguna beiti sér fyrir því árið 2021. Barátta samtakanna heldur áfram þar til dauðarefsingin er afnumin um heim allan, í eitt skipti fyrir öll.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu