Skýrslur
23. maí 2022Samkvæmt árlegri skýrslu Amnesty International um dauðarefsinguna er það mikið áhyggjuefni að dauðadómum og aftökum hafi fjölgað árið 2021 í ríkjum sem hafa beitt henni mikið hingað til. Þessi ríki héldu uppteknum hætti í kjölfar afnáms takmarkana í tengslum við kórónuveirufaraldurinn.
Bakslag
Það voru a.m.k. 579 skráðar aftökur í 18 löndum árið 2021 sem er 20% aukning frá árinu 2020. Íran átti stóran þátt í þessari aukningu þar sem voru framkvæmdar a.m.k. 314 aftökur (voru a.m.k. 246 árið 2020) sem er hæsti fjöldi aftaka í landinu frá árinu 2017. Ein ástæða þess er aukning á aftökum tengdum vímuefnabrotum sem er skýrt brot á alþjóðalögum sem banna beitingu dauðarefsingarinnar fyrir glæpi sem tengjast ekki morðum af yfirlögðu ráði. Í Sádi-Arabíu voru framkvæmdar tvöfalt fleiri aftökur en árið áður og heldur þessi grimmilega þróun áfram í ár en 81 einstaklingur var t.d. tekinn af lífi í Sádi-Arabíu á einum degi í mars.
„Eftir fækkun á aftökum árið 2020 var dauðarefsingunni beitt á ný af fullum þunga í Íran og Sádi-Arabíu þar sem alþjóðalög voru m.a. brotin með ósvífnum hætti. Áhugi þessara landa á atvinnusköpun fyrir böðla virðist ekki fara dvínandi á fyrstu mánuðum ársins 2022.“
Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.
Takmarkanir í tengslum við kórónuveirufaraldurinn töfðu dómsmeðferðir en þegar takmarkanirnar voru smám saman afnumdar víða um heim voru a.m.k. 2.052 dauðadómar kvaddir upp í 56 löndum. Það er næstum því 40% aukning frá árinu 2020. Mikil aukning á dauðadómum var í Bangladess (181 en 113 árið áður), Indlandi (144 en 77 árið áður)og Pakistan (129 en 49 árið áður).
Í stað þess að nýta tækifærið í takmörkunum árið 2020 og finna skilvirkar lausnir gegn glæpum hafa örfá ríki sýnt enn meiri áhuga á dauðarefsingunni. Þar með virða þau að vettugi réttinn til lífs með grimmilegum hætti jafnvel á tímum aðkallandi mannréttindakrísu sem enn á sér stað, segir Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.
„Þrátt fyrir bakslag er heildarfjöldi skráðra aftaka árið 2021 sá næstminnsti, á eftir 2020, sem Amnesty International hefur skráð síðan 2010.“
Ríkisleynd og aukning
Eins og fyrri ár eru aftökur í Kína ekki inni í heildartölum ársins 2021 en Amnesty International telur að þúsundir einstaklinga séu teknir af lífi og dæmdir til dauða þar í landi. Auk þess er talið að töluverður fjöldi aftaka hafi átt sér stað í Norður-Kóreu og Víetnam. Leynd og takmarkaður aðgangur að upplýsingum í þessum þremur löndum gerir það nær ómögulegt að fylgjast með þessum tölum með nákvæmum hætti og í nokkrum öðrum löndum gefa tölurnar eingöngu til kynna lágmarksfjölda aftaka.
„Í Kína, Norður-Kóreu og Víetnam hvílir enn mikil leynd yfir beitingu dauðarefsingarinnar. Það litla sem við vitum er mikið áhyggjuefni.“
Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.
Íran beitir enn dauðarefsingunni fyrir vörslu á ákveðnum tegundum og magni af vímuefnum. Fjöldi aftaka þar í landi vegna brota tengdum vímuefnum fimmfaldaðist á milli ára, var 132 árið 2021 en 23 árið áður. Fleiri konur voru einnig teknar af lífi. Þær voru níu árið 2020 en 14 árið 2021. Írönsk yfirvöld brutu einnig, enn og aftur, á réttindum barna þar sem þrír einstaklingar voru teknir af lífi fyrir brot sem áttu sér stað þegar einstaklingarnir voru yngri en 18 ára en það er brot á skyldum yfirvalda samkvæmt alþjóðalögum.
Fjöldi aftaka milli ára jókst verulega í Sádi-Arabíu (úr 27 í 65), töluverð aukning var í Sómalíu (úr 11 í 21), Suður-Súdan (úr 2 í 9) og Jemen (úr 5 í 14). Aftökur áttu sér stað í Hvíta-Rússlandi (a.m.k. 1 ), Japan (3) og Sameinuðu arabísku furstadæmunum (a.m.k. 1) en árið 2020 voru engar aftökur í þessum þremur löndum.
Aukning var á dauðadómum árið 2021 í samanburði við 2020 í Lýðveldinu Kongó (úr 20 í 80), Egyptalandi (úr 264 í 356), Írak ( úr 27 í 91), Myanmar (úr 1 í 86 ), Víetnam (úr 54 í 119) og Jemen (úr 269 í 298).
Dauðarefsingin sem kúgunartól stjórnvalda
Í nokkrum löndum árið 2021 var dauðarefsingunni beitt sem kúgunartóli stjórnvalda gegn minnihlutahópum og mótmælendum. Stjórnvöld vanvirtu þar með alla varnagla og takmarkanir sem eru á dauðarefsingunni samkvæmt alþjóðalögum og alþjóðlegum stöðlum.
Ógnvekjandi aukning var á beitingu dauðarefsingarinnar í Mjanmar þar sem herlög ríkja. Réttað var yfir óbreyttum borgurum í herrétti með styttri málsmeðferð og án þess að hægt væri að áfrýja dómnum. Tæplega 90 einstaklingar voru dæmdir til dauða að geðþótta, nokkrir í fjarveru þeirra, að því virðist sem hluti af skipulagðri herferð gegn mótmælendum og fjölmiðlafólki.
Egypsk yfirvöld héldu áfram að beita pyndingum og fjöldaaftökum, oft í kjölfar ósanngjarnra réttarhalda. Í Íran voru hlutfallslega fleiri dauðadómar kveðnir upp gegn minnihlutahópum fyrir óljósar ákærur eins og „óvild gegn guði“. Af skráðum aftökum tilheyrðu 19% hinna líflátnu minnihlutahópnum Baluchi sem er aðeins 5% af heildaríbúafjölda í Íran.
Mustafa al-Darwish er eitt af fórnarlömbum stórgallaðs dómskerfis í Sádi-Arabíu. Hann var ungur maður úr minnihlutahópi sjía-múslíma sem var sakaður um þátttöku í ofbeldisfullum mótmælum gegn stjórnvöldum. Hann var tekinn af lífi þann 15. júní í kjölfar gífurlegra ósanngjarnra réttarhalda sem byggðu á „játningu“ vegna pyndinga.
Jákvæð þróun á heimsvísu
Þrátt fyrir þessa ógnvekjandi þróun í áðurnefndum ríkjum á árinu 2021 voru einnig til staðar jákvæð merki í átt að afnámi dauðarefsingarinnar á heimsvísu. Annað árið í röð var fjöldi ríkja sem framkvæmdu aftökur með lægsta móti síðan Amnesty International hóf skrásetningu.
Síerra Leóne samþykkti lög um afnám dauðarefsingarinnar sem þingið samþykkti einróma í júlí en lögin eiga þó eftir að taka gildi. Í desember samþykkti Kasakstan lög (tóku í gildi í janúar 2022) sem afnema dauðarefsinguna fyrir alla glæpi. Stjórnvöld í Papúa Nýju-Gíneu hófu samráð á landsvísu um dauðarefsinguna sem leiddi til þess að frumvarp um afnám hennar var samþykkt í janúar 2022 en lögin eiga enn eftir að taka gildi.
Í lok ársins tilkynntu stjórnvöld í Malasíu um umbætur á lögum um dauðarefsinguna sem á að leggja fram á þriðja ársfjórðungi ársins 2022. Í Mið-Afríkulýðveldinu og Gana hófst ferli í átt að afnámi dauðarefsingarinnar.
Í Bandaríkjunum var Virginía 23. fylkið, og það fyrsta í Suðurríkjunum, til að afnema dauðarefsinguna og þriðja árið í röð voru aftökur frestaðar eða stöðvaðar í Ohio. Ný stjórnvöld Bandaríkjanna stöðvuðu tímabundið allar aftökur á vegum alríkisins í júlí. Aftökur í Bandaríkjunum á árinu 2021 hafa ekki verið færri síðan árið 1988.
Gambía, Kasakstan, Malasía, Rússland og Tadsíkistan héldu áfram opinberri stöðvun á aftökum.
„Þau fáu ríki sem enn halda í dauðarefsinguna hafa verið vöruð við. Heimur án aftaka af hálfu ríkja er mögulegur. Hann er í seilingarfjarlægð og við höldum áfram baráttu okkar. Við hættum ekki að benda á mismunun, geðþóttaákvarðanir og grimmdina sem tengjast þessari refsingu fyrr en öll ríki eru komin úr skugganum. Það er löngu kominn tími á að þessi grimmilega, ómannúðlega og niðurlægjandi refsing heyri sögunni til.“
Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu