Hajar Raissouni var handtekin af marokkósku lögreglunni 31. ágúst síðastliðinn grunuð um að hafa gengist undir þungunarrof, þrátt fyrir að engar sannanir liggi fyrir. Hún var handtekin fyrir utan læknamiðstöð í Rabat ásamt unnusta sínum, lækni og tveimur starfsmönnum læknamiðstöðvarinnar. Öll fimm eru enn í haldi.
Góð frétt: Hún ásamt hinum sem voru handtekin voru leyst úr haldi 16. október. Mál hennar vakti athygli mannréttindasamtaka innanlands sem og utan. Þrýstingur Amnesty International átti þátt í lausn hennar og ýtti undir umræðu um réttindi kvenna og tjáningarfrelsi í Marokkó.
Saad Sahli, lögræðingur Hajar, segir engar sannanir vera í læknaskýrslum sem bendi til þess að hún hafi gengist undir þungunarrof þennan dag. Hajar er ákærð fyrir að hafa gengist undir slíka aðgerð og unnusti hennar er ákærður fyrir spillingu og aðild að þungunarrofi. Læknirinn hennar er ákærður fyrir að framkvæma reglulega þungunarrof og starfsfólk læknamiðstöðvarinnar fyrir aðild að framkvæmd slíkra aðgerða. Öll fimm gætu átt yfir höfði sér eins árs fangelsisvist. Réttarhöld hófust þann 16. september, daginn sem Hajar og unnusti hennar höfðu ráðgert að ganga í það heilaga.
Fjölmiðlafólk og mannréttindasinnar eiga undir högg að sækja í Marokkó og eru reglulega fangelsuð fyrir að tjá skoðanir sínar á friðsaman hátt. Þann 4. september sendi Hajar Raissouni bréf til dagblaðsins Akhbar al-Yaoum þar sem hún starfar. Þar segir hún frá því að hún hafi verið yfirheyrð um pólitísk skrif sín fyrir blaðið, spurð út í samstarfsfólk sitt á blaðinu og fjölskyldumeðlimi sína. Þessar upplýsingar ýta stoðum undir að handtaka hennar sé af pólitískum toga og tengist störfum hennar í blaðamennsku.
Samkvæmt lögum í Marokkó er kynlíf utan hjónabands glæpsamlegt athæfi. Þungunarrof er einnig glæpur undir öllum kringumstæðum nema ef heilsu móður er ógnað og samþykki maka er til staðar. Hins vegar kveða alþjóðalög á um að konur hafi sjálfsforræði yfir eigin líkama og frelsi til ákvörðunartöku er varða kyn- og frjósemisréttindi. Það er kynjamisrétti að glæpavæða heilbrigðisþjónustu sem einungis konur þurfa á að halda, líkt og þungunarrof.
Þetta mál er mikilvæg áminning um nauðsyn þess að fella úr gildi marokkósk lög sem refsa fyrir kynlíf utan hjónabands og þungunarrof. Þessi ákvæði í lögunum eru brot á réttindum kvenna, réttinum til sjálfsforræðis yfir eigin líkama og eigin lífi, frelsi undan mismunun, þvingun og valdbeitingu og réttinum til að njóta bestu fáanlegu kyn- og frjósemisheilsu.
Skrifaðu undir ákallið núna og krefstu þess að Hajar Raissouni, unnusti hennar, læknir og starfsfólk læknamiðstöðvarinnar verði leyst úr haldi án tafar.